VEIÐIFERÐ Á SVÆÐI ÁRBÓTAR Í LAXÁ Í AÐALDAL - Fish Partner

VEIÐIFERÐ Á SVÆÐI ÁRBÓTAR Í LAXÁ Í AÐALDAL

Svæði sem tilheyrir jörðinni Árbót í Aðaldal er stórt og þar eru allmargir veiðistaðir sem áhugavert er að veiða á. Þetta svæði er í nokkru uppáhaldi hjá mér og síðasta sumar veiddi ég þarna eins og allmörg sumur þar á undan. Þetta svæði fór illa út úr þeirri lægð sem hefur verið í Laxánni til nokkurra ára, en nú síðustu ár hefur svæðið verið að koma til.


Í ágúst og september sumarið 2011 virtust þeir fornfrægu stórlaxastaðir sem eru á svæðinu vera farnir að gefa laxa aftur. Veiðiferð mín síðasta sumar byrjaði fagran seinnipart á Byrgisflúð og Lönguflúð, en góð veiði hafði verið á Knútstaðartúni dagana áður, en það er bakkinn á móti. Ekki varð neitt um veiði hjá mér þessa vakt en það vakti athygli mína hvað Langaflúðin virtist vera lífleg þó að ekki tækist mér að festa í fiski, eitt högg fékk ég þó langt úti í ánni fyrir ofan klettinn í miðri flúðinni. Bæjarklöppin var reynd líka en ekki varð árangur þar. Morguninn eftir byrjuðum við í Bótarstreng og festum strax í smálaxi á Sun-Ray en hann stökk og losaði sig eftir fáeinar mínútur.


Því næst var gengið upp að Höskuldarvík sem er efsti staður svæðisins og geymir alltaf stórlaxa, tökustaðurinn í Höskuldarvík er út af broti sem gengur austur úr hólmanum í víkinni og þar urðum við fljótlega varir við lax, eftir nokkur köst skiptum við yfir í sökklínu. Þegar ég fór að lengja í köstunum og ná út á brotið tók gríðar stór lax, hann kafaði strax niður í brotið og lá þar í um 20 mínútur án þess að mér tækist að þoka honum nokkuð, eftir talsverð átök sakkaði hann sér neðar í strenginn og niður undir brot sem er neðst í veiðistaðnum, þarna var straumurinn orðin mikill á laxinn í yfirstærð, þessi viðureign endaði þarna á brotinu eftir um 40 mínútur með því að krækjan losnaði úr laxinum. Ég gekk eftir þetta aftur upp að hólmanum og kastaði á þann stað sem laxinn tók og fékk fljótlega aðra töku, þessi lax var heldur minni og eftir hálftíma tókst okkur að landa honum, þetta var leginn hængur og mældist 99 cm og vó 10,5 kg.


Næsti veiðistaður er Syðri-Seltangi, þetta er langur staður sem lax safnast í seinni part sumars og þarf maður að gefa sér góðan tíma til þess að veiða allan strenginn. Í þetta skipti fengum við urriða neðst í strengnum, en það er einn besti urriða-staður á þessu svæði.
Tjarnarhólmaflúð er næst og er það skemmtileg flúð sem lax liggur alltaf í, ef það er logn og gott að sjá hreyfingu í vatninu sést stundum brjóta á laxi sem eltir niður í flúðina þegar flugan skautar niður á klöppina sem liggur á milli hólmanns og austurbakkans. Þessa kvöldstund var þannig veður og sáum við nokkra laxa sem eltu hjá okkur niður í flúðina en engin þeirra vildi taka. Það var einnig tilkomumikið að sjá þessa stóru laxa sýna bakuggann þarna rétt framan við þar sem við stóðum. Spónhylur er svo neðan við hólmann en erfitt er að kasta á þann stað með flugu nema vaða talsvert út frá bílastæðinu hjá Ytri-Seltanga, en það er bara á færi þeirra sem eru vel skóaðir því straumurinn er mikill.
Ytri-Seltangi er einnig nokkuð góður laxastaður, en þennan dag sáum við ekki lax þar, þó að það liggi æði oft lax þar framan við tangann. Ég veiði oftast allan strenginn niður að Bótarstreng eða Símastreng eins og hann heitir á vesturbakkanum. Þarna er alltaf stór lax og því reyndum við að hraða okkur til þess að geta notað síðasta klukkutímann af vaktinni þarna. Strax í fyrsta kasti kom lax og tók hjá mér Black and blue túbu en sleppti henni strax aftur þannig að ekki tókst mér að festa í honum, en stuttu seinna fékk ég góða töku, þetta var 74 cm hrygna sem var komin mjög nálægt hrygningu. Okkur tókst að mæla lengd hennar í vatninu og losa úr henni krækjuna. Stuttu senna tók önnur hrygna sem var heldur minni en sú fyrri og var henni einnig gefið líf.


Svæðið sem tilheyrir jörðinni Árbót er með skemmtilegri svæðum sem ég hef veitt á, staðirnir Höskuldarvík og Langaflúð eru í mestu uppáhaldi og er það vegna þess að þetta eru erfiðir staðir að veiða á. Þarna þarf veiðimaðurinn að vera vel kunnugur og geta kastað nokkuð langt til þess að ná þangað sem laxinn liggur. Á góðum degi getur maður lent þarna í stórkostlegum ævintýrum sem gleymast aldrei.
Kveðja frá veiðimanni

Vinsæl veiðisvæði

Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.