Veiðistaðalýsing Blanda sv 4 - Fish Partner

Veiðistaðalýsing Blanda sv 4

Högni Harðarson, sem rekur vefinn Veiðiheimar, sendi okkur þessa skemmtilegu veiðistaðalýsingu af Blöndu Sv 4.
Lýsingin er fyrir veiðistaði frá Hvítaneshyl niður að Litla-Klifi. Vonandi verður hægt að bæta við nánari lýsingu á stöðum ofan við Hvítaneshyl sem fyrst

Við eigum enn laus holl á Sv. 4 næsta sumar.

Hvítaneshylur:
Keyrt að Eldjárnsstöðum og farið túnið að girðingu, en trétröppur liggja yfir hana. Það er smá
lapp upp í Hvítaneshyl, en veiðistaðirnir Þegjandi og Krókur eru skammt fyrir neðan hann. Hvítaneshylur
er veiddur að austan, farið er yfir ána. Þarna liggur fiskurinn oftast frekar ofarlega, eða við og
fyrir neðan klettahrygg sem hægt er að vaða út á. Einnig liggur fiskur oft þar sem aðal
strengurinn deyr út, eða þar sem veiðistaðurinn fer að gringa. Ekki eyða og miklum tíma þarna,
laxinn tekur oftast strax ef hann er þarna.

Krókur:
Þetta er skemmtilegur veiðistaður og hann er veiddur að austan. Laxinn liggur þarna í tveimur
rennum ofarlega í hylnum, þó meira í þeirri sem er nær manni (fara varlega). Oft er erfitt að sjá
fisk þarna, en ekki má vanmeta þá staðreynd að hann er þarna!! Þarna er skemmtilegt að nota
hitch og smáar flugur, láta þær skauta á yfirborðinu.

Þegjandi:
Frekar grunnur staður og gefur oftast fáa fiska, en þó ekki sleppa að kasta í hann. Göngustaður,
þar sem fiskur liggur við grjót og í litlum „bollum“.

Stekkjarhamrahylur:
Fallegur veiðistaður en getur reynst frekar erfiður og vandveiddur. Þarna er þó nánast alltaf
fiskur. Þessi staður er oftast veiddur að austan, þó má einnig kasta í hann að vestan. Fiskur liggur
þar sem straumurinn deyr út og við grjót sem eru í miðjum hylnum (sjást ekki alltaf vel). Þarna
þurfa helst tveir veiðimenn að vera saman, því löndun er erfið.

Klifhylur:
Mjög langur veiðistaður, en fiskur liggur þó aðallega í honum ofanlega og undir hann miðjan
(mikið í grjótum og „bollum“). Hann er mjög lign og létt að stiggja fiskinn! Nota smáar flugur,
langan taum. Hann er veiddur frá austurbakkanum og þarf því að fara yfir ána. Best er að komast
að Klifhyl með því að labba frá þeim stað þar sem maður kemur niður í gilið frá veiðihúsinu á
Eiðsstöðum. Farið er niður í gilið beint yfir túnið neðan við Eiðstaði og komið á ánni rétt fyrir
ofan Bjarghyl.

Bollastaðabreiða:
Magnaður veiðistaður, um 300 m fyrir ofan Bollastaði, og geymir oft mikið af fiski. Í honum er
áberandi klettahryggur sem nær nánast niður hálfan hylinn. Laxinn liggur aðallega frá „stútnum“
á veiðistaðnum og alveg niður þar sem klettahryggurinn endar. Það er mjög stórt og áberandi
grjót (bjarg) við hrygginn á einum stað og við það liggja oft fiskar. Nokkuð neðar en þar sem
hryggurinn endar, skagar smá klettur út í ána frá bakkanum. Útaf þessum kletti, oftast um miðjan
hylinn má oft fá fisk og liggja þeir við nokkra steina sem þarna eru. Þarna er gaman að vera 
prófa sig áfram með ýmsar flugur, smáar keilur, þríkrækjur og hitch.

Bjarghylur:
Þarna er stundum hægt að gera góða veiði. Laxinn liggur oftast þar sem áin rennur inn í hylinn
og myndar straumrásir sem deyja svo hægt út við bjarg sem skagar út í hylinn. Hann liggur þó
einnig í dýpinu við og fyrir framan bjargið, en þar er erfiðara að fá hann til að taka. Best er að
vaða aðeins út í ána vel fyrir ofan hylinn og nota í fyrstu stutt köst, en lengja hægt og rólega.
Fyrst er staðið vestan megin, en hægt og rólega vaðið yfir ána um leið og staðurinn er veiddur.
Gott er að landa fiski inn í „dauða pollinum“ vestan megin við ána.

Kálfhagahylur:
Þó þetta sé fallegur veiðistaður, er hann mis-gjöfull. Farið er út á malareyri sem er austan megin
við ána. Fiskur getur legið í rennu efst í hylnum, en er þó aðallega beint út af og aðeins fyrir
neðan áberandi grjóthrúgu sem er í bakkanum vestan megin við ána (grjót með rauðum lit í). Áin
rennur að hluta til vestan megin við malareyrina og myndar straumskil þar sem hún kemur inn í
hylinn, þarna liggur oft fiskur.

Efri og neðri Brik:
Fallegir og oft gjöfullir veiðistaðir. Þekkjast vel á klettasúlu sem stendur vestan við staðinn. Efri
staðurinn er oftast veiddur að austan, byrja að veiða brotið og síðan strenginn, jafnvel
andstreymis. Það er einnig hægt að fara upp fyrir klettasúluna, vestan megin við ána, og veiða
Efra brik þaðan. Laxinn liggur oft mjög nálægt landinu vestan megin, svo þarna þarf að fara
varlega. Neðra Brik er hægt að veiða frá báðum bökkum, þó er betra að vera austan megin
árinnar til að styggja ekki. Laxinn liggur nefnilega við bakkan vestan megin, í straumkantinum
og alveg þangað sem straumurinn deyr út.

Brot:
Þarna stoppar fiskur í göngu og er ekki verðugt að eyða löngum tíma á þessum stað. Möl hefur
safnast í hann og er hann talsvert grunnur.

Breiðan:
Þarna eru 2 veiðistaðir. Efst á breiðunni, þar sem áin rennur inn í hana og neðst á breiðunni þar
sem er er manngerður grjótgarður. Veiðistaðurinn efst á breiðunni hefur oft verið einn besti
veðistaðurinn í Blöndu 4. Þarna liggur fiskur oftast við stórt grjót um miðjan hylinn og niður
undir froðuna sem myndast við bakkan vestan megin. Hann getur einnig verið undir froðunni 
Þarna liggja oft stórir laxar allt sumarið. Byrja skal ofarlega á veiðistaðnum, lax sem er í göngu
liggur oft við grjót sem eru þar vel sjáanleg.
Við grjótgarðinn er vaðið út þangað sem áin fellur við og fram hjá garðinum. Þarna myndast smá
hylur, sem best er að veiða með að standa beint fyrir ofan hann og færa sig síðan hægt yfir á
austari bakkan. Ef þarna er fiskur í göngu, tekur hann oftast mjög fljótt. Þessa tvo staði ætti að
veiða nokkrum sinnum á vakt, þar sem þeir geta allt í einu gefið nýja fiska sem eru í göngu.

Litla Klif:
Þetta er neðsti veiðistaðurinn í Blöndu 4, veiddur frá vestari bakkanum. Hann gefur oft vel,
aðallega þegar nýr fiskur er að koma inn á svæðið. Lax liggur oftast þarna um miðjan strenginn
og niður að grjóti sem er við austur bakkann. Þetta er viðkvæmur staður og þarna þarf að fara
varlega til að styggja ekki. Eins og með Breiðuna ætti að veiða þennan stað nokkrum sinnum á
vakt.

Aðrir veiðistaðir:
Það eru nokkri litlir veiðistaðir á milli Bjarghyls og Efri og neðri Briks sem verðugt er að skoða,
en ekki ætti að eyða tíma í þá ef það er mikið líf á öðrum stöðum. Ekki er þörf að fara ofar í ána,
nema það sé búið að skrá fiska á þeim veiðistöðum í bókina eða dræm veiði sé í neðri hlutanum.
Þar eru Langhylur, Kirkjuhylur, Stikilhylur og Rugludalshylur mest spennandi. Þarna er fallegt
og sumir gera sér göngutúr frá Rugludalshyl og niður að Eldjárnstöðum ef fiskur er kominn.

Veiðiútbúnaður:
Best er að nota stangir fyrir línu 6-8 þarna. Það er alls engin þörf fyrir mikið lengri stangir en 9´,
tvíhendur eru óþarfar. Flestir nota eingöngu flotlínu þarna, þó er hentugt að geta veitt dýpra
jafnvel með sökktöppum t.d. í Bjarghyl og Stekkjarhamrahyl. Þarna virka smáar flugur best,
þríkrækjur nr. 14 og 16, smáair „coneheads“ og hitchtúpur. Ýmsar gerðir af smærri Sunray S.
Einnig má púpa laxinn upp, veiða andstreymis. Gott er að vera með neglda vöðluskó. Það þarf að vaða töluvert og víðsvegar sleipur botn. 

Vinsæl veiðisvæði

Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.