Veiðisögukeppni #6 - 70cm múrinn - Fish Partner
Veiðisögukeppni #6 - 70cm múrinn - Risa Bleikja úr Eyjarfjarðará

Veiðisögukeppni #6 – 70cm múrinn

Næsta sagan í Veiðisögukeppninni sem við birtum kemur frá Benjamín Þorra Bergssyni

Eyjafjarðará, 2. Ágúst 2020

Þann 2. ágúst var ég að veiða á svæði 5 í Eyjafjarðará. Þetta er uppáhalds svæðið mitt í ánni og þarna veiði ég mikið. Við vorum tveir saman, ég og Jón Gunnar frændi minn. Svæðið var búið að vera erfitt og lítið búið að veiðast en fiskurinn var mættur og klukkan 08:04 setti ég í væna bleikju á fluguna Krókinn eftir afa Gylfa heitinn. Mikið vatn var í ánni og áin flæddi víða yfir bakka sína.


Ég sá strax að þetta var enginn tittur. Þegar hún kom upp úr vatninu með hausinn og bakið og starði á mig var það bara svona eins og hún væri að segja: “Viltu stíga smá dans?” Svo lét hún sig bara fara niður flúðirnar og þá hófst eltingarleikurinn. Fyrir neðan staðinn sem ég setti í hana sem oft er kallaður Jökulbreiða er enginn annar veiðistaður nema nokkrum kílómetrum neðar og í þessu vatni voru þetta eiginlega bara endalusar flúðir. Bleikjan fór bara neðar og neðar og ég hlaupandi á eftir henni. Ég reyndi hvað ég gat að tosa bleikjuna nær landi en gat ekki tekið of fast á henni því ég var bara með tíu punda kamasan taum og krók #10. Það gekk bara ekkert upp að þreyta hana og bleikjan hossaðist niður hundruði metra áður en hún kom að stað þar sem áin kvíslast. Ég var á vesturbakkanum en bleikjan vildi bara fara niður austurkvíslina. Þar fór hún niður og þá virtist baráttan töpuð fyrir mig því áin var óvaðanleg því svo hratt var vatnið en þá kom Jón til bjargar. Jón notast nefnilega við fjórhjól til að geta stundað sportið sem við elskum svo kært. Ég settist á fjórhjólið, gaf allt laust á fluguhjólinu og við keyrðum yfir ána og svo hoppaði ég af og viti menn, bleikjan var enn á!


Hún var sko ekki að fara að gefast upp þrátt fyrir ævintýranlega reddingu okkar frænda. Bleikjan gaf í og þaut áfram niður ána. Þegar að við komum að Vatnsendabrú þá sá ég mér leik á borði og reyndi að koma bleikjunni inn á djúpa dauða vatnið fyrir ofan brú. Það tókst og þá rétti ég Jóni stöngina í von um að geta háfað bleikjuna sjálfur. Þegar ég læddist upp að bleikjunni tók hún aftur á rás og kom Jóni mjög á óvart því hann var búinn að herða bremsuna og litlu mátti muna að bleikjan sliti línuna en 10 punda kamasaninn hélt enn.


Ég greip stöngina frá Jóni og ætlaði að halda áfram að elta en Jón sagði að ég gæti ekki farið lengra því vatnið væri of djúpt og brúin var fyrir neðan, Ég var samt staðráðinn í að ná þessum fiski og á einhvern ótrúlegan hátt náði ég að tipla á tánum yfir djúpa vatnið og yfir holurnar þar sem vatnið var of djúpt fyrir mig. Það virtist allt ætla að reddast í baráttunni við þennann fisk þangað til Jón festi fjórhjólið í sandbleytu og sat þar kyrr. Þegar þarna var komið hefði mátt halda að sögunni væri lokið og sigurinn væri bleikjunnar. Ég var hins vegar staðráðinn í að klára dæmið og sagði við sjálfan mig aftur og aftur: ,,Þetta reddast”. Eins og í góðri lygasögu gekk allt upp á endanum, fjórhjólið losnaði einhvern veginn úr sandbleytunni og við komumst áfram leiðar okkar með blessaða bleikjuna enn á króknum. Það var svo ekki fyrr en 2,5 km fyrir neðan staðinn sem ég setti í fiskinn að hann loksins gaf sig og ég náði að landa þessari fallegu bleikju á grasfleti þar sem vatnið rétt svo flæddi yfir. Þar náði ég loks að háfa þessa kusu og handleika og á því augnabliki þegar að ég var nýbúinn að setja hana í háfinn smellti Jón þessari mögnuðu mynd af mér þegar ég missti mig í fagnaðarlátunum eftir baráttuna.

Ég skellti svo málbandinu á bleikjuna og hún mældist 70,4 cm og er stærsta bleikja sem ég hef veitt. Ég náði loksins að brjóta 70 cm múrinn sem er markmið sem ég setti mér í fyrravor þegar samkomubannið stóð yfir og hugurinn planaði veiðidaga sumarsins.

Með veiðikveðju Benjamín Þorri, 15 ára veiðisjúklingur

Vinsæl veiðisvæði

Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Síðsumarsá í stóbrotinni náttúru – Þessi tveggja stanga perla og rennur í gríðarlega fallegu, skógi vöxnu, umhverfi í Þjórsárdal.