Veiðisögukeppni #4 - Draugasaga úr veiði - Fish Partner
Veiðisögukeppni #4 - Draugasaga úr veiði

Veiðisögukeppni #4 – Draugasaga úr veiði

Næsta sagan í Veiðisögukeppninni sem við birtum kemur frá Ólafi Tómas Guðbjartssyni.

Draugasaga úr veiði.

Það er margt furðulegt sem veiðimaður hefur upplifað. Ég er þannig veiðimaður að ég nýt mín best einn, langt úr alfaraleið. Ég hef eytt ófáum sumarnóttunum einn í kyrrðinni og því upplifað ýmislegt sem erfitt hefur verið fyrir mig að útskýra, í fyrstu. Dularfull hljóð, skuggalegar verur, krafs utan á tjaldi, mannsraddir sem hrekkja mig í svefnpokanum í lautinni og jafnvel skothvelli og hjálparköll. Allt hefur þetta þó átt sínar einföldu útskýringar.

Ég verð sjaldan hræddur á þannig stundum. Ég trúi nefnilega tæplega á drauga og skrímsli.

Eitt sinn vaknaði ég upp um miðja nótt er krafsað var í tjaldið, langt upp á fjalli við lítil vötn. Eftir að hafa setið einn í þögninni, þreifað eftir veiðihnífnum og leyft hjartanu að hamast undir hugsunum um fjöldamorðingja eða hungraðan Urðakött, hafði ég mig í það að kíkja út. Fyrir framan tjaldið stóð falleg tófa, sem pírði augum á móti. Refurinn reiðir sig meira á lyktarskynið fremur en sjónina, og um leið og hún fann tjaldprumpustækjuna af mér, hvarf hún á brott. Hún hafði runnið á lyktina af silungnum sem ég grillaði um kvöldið. Á þessu tiltekna svæði er bannað að brúka skotvopn og refurinn þekkir manninn ekki sem ógn að svo miklu leiti.

Í öðru tilviki, var ég við veiðar við annan mann, og gistum við í litlu veiðihúsi. Ég vaknaði um morguninn við þessi svakalegu þjáningar öskur. Álíka sársaukastunur koma ekki frá manneskju nema sé verið að slægja hana lifandi. Ég stökk á fætur, greip með mér blómavasa, mér til halds- og trausts og hljóp yfir í herbergi félagans og bjóst við því að þurfa að berjast. En þar útskýrðist málið. Við höfðum verið að veiða allan daginn áður í sól og blíðu og veiðifélaginn, sem var verulega hneigður til áfengisdrykkju, drakk áfengi og meig í sólinni allan liðlangan daginn án þess að einu sinni huga að því að drekka dropa af vatni. Hann vaknaði þurr eins og múmía. Það var varla desilíter af vatni eftir í líkama mannsins. Hausinn var næstum eins og samanreknu þurrkhausar frumbyggjanna í útlöndum. Hann hreinlega öskraði af sársauka.

En eitt af því sem ég hef aldrei getað útskýrt, er eitthvað sem gerðist er ég var unglingur. Ég var við veiðar í Fiskilæk á Eyvindarstaðarheiði. Þetta var rétt eftir að Blanda var virkjuð og gríðarlegt magn silungs lokaðist af inni á milli stífluþrepa, milli Gilsvatns og Friðmundavatna. Ég kastaði spún á þessum tíma og fékk urriða sem tók spúninn af svo mikilli áfergju að tveir önglanna gengu upp í gegnum góminn á honum og stungust út um sitthvora nösina. Þetta fannst mér afskaplega fyndið að sjá og lyfti urriðanum upp hlægjandi og sýndi veiðifélögunum, hversu fáránlegur urriðinn væri með önglana standandi út úr nösum sér.

Grindhoraður og bólagrafin öskraði ég níðyrði með brotinni unglingsröddu, um þennan gráðuga fisk. Það sem er kannski kaldhæðnislegast við þessa niðurlægingu mína á urriðanum, er að margar rannsóknir benda til þess að nasarholur fiska, séu næmar fyrir segulsviði. Og eru því hugsanlega lykillinn að ratvísi fiska. Þeir noti nefið sem ákveðinn áttarvita og ég hló að járnönglum sem stóðu út um nefholurnar. Ég vissi ekkert um það á þeim tíma, og sló þennan urriða í hausinn hlægjandi, og gerði um leið grín að heimsku- og græðgi hans er ég kastaði honum á bakkann án þess að blóðga.

Er ég leit upp, tók ég eftir því að veiðifélagar mínir störðu á mig gapandi. Hvað gat það verið? Þetta gerðist árið 1995, svo enginn var að kippa sér upp við hverslags fjöldadráp, enda lágu fyrir nokkrir vænir urriðar á bakkanum. Nei, úr báðum nösum mér runnu blóðtaumar. Ég fékk skyndilega blóðnasir á báðum, eins og sagt er. Ég hef aldrei getað útskýrt þetta fyllilega. Og mig hreinlega langar það ekki. Ég lærði mína lexíu. Ég þurfti sjálfur ekki nefið til að rata heim. Skömmin var næginlega nákvæmur áttaviti. Hann gaf mér á trýnið og ég átti það skilið. Ég hef eftir það, alltaf borið virðingu fyrir bráð minni.

Ólafur í sýnu náttúrlega umhverfi

Vinsæl veiðisvæði

Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.