Veiðisögukeppni #3 - Gripnir í landhelgi skarfsins - Fish Partner
Veiðisögukeppni #3 - Gripnir í landhelgi skarfsins

Veiðisögukeppni #3 – Gripnir í landhelgi skarfsins

Næsta sagan í Veiðisögukeppninni sem við birtum kemur frá Jón Oddi Guðmundssyni

Gripnir í landhelgi skarfsins

Laxá í Leirársveit, júlí 1998

Rúta rann í hlað við veiðihúsið í Laxá og út úr rykmökknum steig hópur glaðbeittra Ameríkana. Ég hafði verið fenginn til að leiðbeina einum þeirra sem var viðskiptajöfur, beinustu leið frá Manhattan. Maður um fertugt, hress en alveg óvanur. Þægindaramminn víðs fjarri. „Hey, John. I’m Charlie, what’s up, dude? Are we gonna catch some salmon or what?“ Mér leist vel á svipinn á Charlie þótt veiðin hafði reyndar verið með rólegra móti. En mér sýndist félagsskapurinn verða góður. Við færum langt á því. Og ég hafði alltaf haft gaman af að koma byrjendum upp á lagið í veiði. 

Fyrsta eftirmiðdagsvaktin var ánægjuleg en fór að mestu í að kenna Charlie að kasta og leggja línuna rétt enda var minn maður glænýr í sportinu. Presentasjónin skiptir jú öllu og gott að byrja rólega. „The only way is up, Charlie. Aquarium tomorrow morning,“ sagði ég í lok fisklausrar vaktarinnar. Morguninn eftir áttum við nefnilega Laxfoss og þá skyldi Charlie fá maríulaxinn. Svo ég var brattur og nokkuð yfirlýsingaglaður. 

„Well, John. It’s now or never. Right?“ Minn maður Charlie kominn í vöðlurnar, búinn með morgunkaffið, tilbúinn. Laxfoss beið. Kannski óþarflega fallegur morgunn, sól þegar komin hátt á himin og hækkandi hiti. Ég fór lengri leiðina með Charlie niður í Laxfoss til að styggja ekki. Tókum enga sénsa. Læddumst upp meðfram klettinum fyrir neðan foss, tókum okkur stöðu við hvítfyssið fyrir neðan, í mittisdjúpu vatni með klettavegginn fyrir aftan okkur. Komnir í kjöraðstöðu og dauðafæri. En um leið og ég hnýtti það öruggasta í boxinu undir hjá Charlie, Green Butt nr. 12, fékk ég einhverja óútskýrða en óþægilega tilfinningu, eins og fylgst væri með okkur. 

Ég leit upp: Á hinum bakkanum stóð dílaskarfur, bísperrtur og tilbúinn í fiskveiðideilur við aðkomumennina. Hér yrði ekkert lúffað. Ég horfði á Charlie, nikkaði í átt að skarfinum og sagði annars hugar: „Look. Cormorant.“ Charlie lét sér fátt um finnast enda hafði hann í nógu að snúast. Við snérum okkur að verkefni morgunsins. Mínum manni gekk þokkalega að koma línunni út og fiskur að bylta sér á breiðunni fyrir neðan fossinn. Ég gat hins vegar ekki virt skarfinn að vettugi. Hann var enn á sínum stað á fjærbakkanum og fylgdist stíft með okkur. Og augnaráðið sagði aðeins eitt: Þessi hylur er ekki nógu stór fyrir okkur báða. Hvað þá viðvaninginn við hliðina á þér. Og ég vissi sem var. Skarfurinn yrði vandamál. 

Charlie fór í gegnum hylinn án teljandi árangurs, ef frá er talin ein ólga á eftir flugunni. Ókei. Nógur tími. Rauður Frances var næstur undir. Skarfurinn var farinn að ókyrrast og þá dró til tíðinda. Hann ranghvolfdi augunum og stakk sér í kaf. Þeir sem þekkja Laxfoss vita, að hylurinn er glær og auðvelt að fylgjast með því sem á gengur undir yfirborðinu. Skarfurinn kom á mikilli siglingu, þvert á hylinn. Og hann virtist ekki vera í neinni veiðiferð, því hann stefndi á okkur. Hratt. 

Charlie kastaði einbeittur og tók ekki eftir neinu. Flóðbylgjan nálgaðist okkur óðfluga. Ég var löngu hættur að fylgjast með því sem Charlie var að gera og mér var hætt að lítast á blikuna. Hér stefndi í senu úr Jaws. 

Þegar skarfurinn – sem enn var í kafi – átti u.þ.b. tvo metra í okkur hnippti ég í minn mann sem hætti að kasta. „Remember the cormorant earlier?“ sagði ég nokkuð óstyrkri röddu. „Well, he’s coming. And he’s coming fast!“ Án þess að segja orð brugðum við báðir á sama ráð: Við hlupum. Og við hlupum eins hratt og við gátum í mittisdjúpu vatninu. Ég leit um öxl. Flóðbylgjan nálgaðist enn. Við komum að veggbröttum klettinum og ekkert annað að gera en að stökkva upp úr, annars mjög óvenjulegar aðfarir í Laxfossi. 

Við náðum að fóta okkur á lítilli syllu en með herkjum þó. Í ánni fyrir neðan okkur var skarfurinn enn á fullu stími, stefndi beint á klettinn en tók svo ógnandi 180º snúning og hvarf aftur út í hylinn, enn á kafi. Við bröltum í land til að ná áttum, lafmóðir. Eftir nokkur augnablik sem þó virtust heil eilífð kom skarfurinn upp á yfirborðið við bakkann fjær og hann var ekki einn — heldur með vænan sjóbirting í goggnum. Fullkomin ferð: Búinn að losa sig við samkeppnina – hafi hún verið nokkur – og ná sér í vænan fisk í leiðinni. 

Ekki urðu afrek okkar Charlie fleiri þennan morguninn. En við komumst heilir á húfi frá þessari mannraun og nýju Simms-vöðlurnar mínar ekki í tætlum eftir mannýgan skarfinn. Það var þó eitthvað.

Vinsæl veiðisvæði

Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Síðsumarsá í stóbrotinni náttúru – Þessi tveggja stanga perla og rennur í gríðarlega fallegu, skógi vöxnu, umhverfi í Þjórsárdal.