Veiðisögukeppni #1 - Dýrðin í Hofsá - Fish Partner Veiðifélag
Veiðisögukeppni #1 - Dýrðin í Hofsa - Lax

Veiðisögukeppni #1 – Dýrðin í Hofsá

Fyrsta sagan í Veiðisögukeppninni sem við birtum kemur frá Jón Ragnari Reynissyni.

Dýrðin í Hofsá.

Ég og sonur minn höfum aukið okkar veiðiskap saman undanfarin ár og er svo komið að hann er minn aðalmakker í dag.

Við fórum víða til veiða síðasta sumar og meðal annars í Eystri Rangá og síðan Hofsá í Vopnafirði með stuttu millibili snemma sumars.

Þegar í Hofsá er komið þá var staðan þannig að í Eystri fékk ég 4 laxa en hann engan og var einn af þeim nýgenginn 91cm hængur..

Þetta var ekki alveg sanngjörn staða fannst honum enda mikill keppnismaður eins og faðirinn.

Við hefjum veiðar á svæði 3 sama svæði og ég byrjaði á í minni fyrstu ferð í ánna 3 árum áður og hefjum veiðar í Grundarhornshyl/Junction.

Í fyrstu ferðinni fékk ég lax þar strax í fyrsta rennsli en ekki núna og vaktin leið án teljandi tíðinda, þó urðum við varir við laxa víða.

Vakt 2 eigum við svæði 5 og eins og kunnugir vita þá á stöngin sitt svæði í Hofsá alla vaktina og getur valsað þar um að vild, þvílík snilld.

Alla vega þá ákveðum við að byrja á heitasta staðnum á svæðinu og koma svo aftur þangað í lok vaktar fyrir hádegi.

Wilson run er sjóðandi af laxi og þar byrjum við að renna.

Ekki líður á löngu þangað til að faðirinn ég set í fyrsta laxinn við litla hrifningu sonarins þar sem staðan versnaði fyrir hann allverulega.

Nokkrum mínútum síðar landa ég nýrunnum 50cm laxi, óttalegu tittur, en fyrir honum var þetta lax og varð vantraust hans á eigin veiðiaðferðir endanlega orðið algert.

Vaktin leið og jókst ólund drengsins jafnt og þétt og ekki hjálpaði að ég var að reisa fiska og í nokkuð góðum veiðifíling.

Þegar við svo komum aftur í Wilson run rétt fyrir 12 á hádegi er hann algjerlega búinn að missa alla von.

Ég segi honum að nú verði hann bara að treysta á sjálfan sig í fluguvali og aðferðum, ég ætla bara að setjast við bílinn með stöngina, skipta um taum og njóta blíðunnar, vill ekki heyra múkk í honum það sem eftir lifir vaktar.

Ekki líður langur tími þangað til hann kallar fiskur..

Strax varð ljóst að hér var um alvöru fisk að ræða og hófst mikið reipitog.

Eftir c.a 15-20 mín og endalausar rokur yfir strauminn að hinum bakkanum tókst okkur að sjá hann og váá.

Þarna vorum við í feitum sjéns að ná honum í háfinn og munaði engu, en kauði var ekki alveg tlibúinn að gefast upp og tekur roku sem endar niðri á broti og þaðan niður flúðirnar og við hlupum af stað.

Þarna fyrir neðan er eiginlega enginn pallur langar leiðir og við gerðum nokkrar misheppnaðar tilraunir til að fara útí með háfinn en það gekk ekki neitt og við héldum áfram að hlaupa.

Á tímapunkti fannst mér við ekki getað hlaupið meir, en svo horfðum við á hvorn annan með skelfingarsvip og héldum áfram að hlaupa.

Eftir c.a hálfan kílómeter kom hægara vatn og fiskurinn stoppaði. 

Klukkutíma viðureign lauk með því að sonurinn landaði fallegasta 93 cm nýlega gengnum hæng sem ég hef séð á Green brahan nr.14 (tvíkrækja)og varð stærsti fiskurinn í hollinu.

Gleðin og hamingjan maður lifandi en blóðbragðið í munninum og örmögnunin var alger.

Þarna var sonurinn búinn að toppa pabban í stærð og gleðibrosið fór ekki af okkur það sem eftir lifði veiðitúrsins, sem varð mjög eftirminnilegur með 5 laxa landaða og slatta af miss og tökum.

Megi laxinn lifa..

Stórkostlegur lax
Smá laxinn

Vinsæl veiðisvæði

Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Síðsumarsá í stóbrotinni náttúru – Þessi tveggja stanga perla og rennur í gríðarlega fallegu, skógi vöxnu, umhverfi í Þjórsárdal.