Fish Partner Veiðifélag - Þurrfluguveiði - Pálmi Gunnarsson
Þurfluga

Þurrfluguveiði

 

Þurrfluguveiði

Nú þegar þurrfluguveiðin er komin á fullt fengum við einn færasta veiðimann landsins, hann Pálma Gunnarsson, að upplýsa okkur aðeins um þurrfluguveiði:

 

ÞURRFLUGUVEIÐAR
Pálmi Gunnarsson

Ég mun aldrei gleyma fyrstu þurrflugutökunni minni. Á flóanum fyrir neðan Hagatá í Laxá í
Mývatnssveit. Ég var búinn að veiða mig niður kvíslarnar og setja í nokkra fallega urriða með
hefðbundnum straumflugum. Í bakpokanum mínum lúrði hinsvegar lítið flugubox með nokkrum
Black gnat, nokkrar vorflugur úr elgshárum í mismunandi litum og svo hin heimsfræga Evrópa sem
einhver sagði mér að væri nauðsynleg í boxið.

Á þessum tíma hafði ég farið í gegnum nokkra fasa, frá
þungum sökklínum þar sem maður strippaði í akkorði frá morgni til kvölds með stórum
straumflugum til flotlínuveiða og aðeins minni atgangs. Eitthvað hafði ég verið að veiða með púpum
andstreymis og náð ágætum árangri með óþyngdum púpum þar sem kúluhausinn heillaði mig ekki, og
eins fannst mér gaman að kasta marflóareftirlíkingum fyrir sjóbleikju í þaraósum og finnst enn.
Þegar ég kom á Hagatá var dottið á dúnalogn og fiskur útum allt að taka flugu. Það var komið að
stóru stundinni og samkvæmt ráðleggingum grennti ég tauminn og setti Evrópu undir.
Það er kominn vorflugutími og stóru goggarnir farnir að sýna sig, hafði ég eftir vini mínum sem vissi
aðeins meira en ég um þurrfluguveiðar á urriða.

Ekki gekk þessi fyrsta tilraun mín andskotalaust, ég
kom flugunni frá mér en hún skautaði strax hjá mér og gáraði svo frussið stóð útfrá henni. Svo kom
að því eftir smá mas að ég fór að ná almennilegu reki en gráðugir urriðarnir litu ekki við Evrópunni.
Mér var hugsað til Kriegers vinar míns sem ráðlagði mér að beita athyglinni. „Skoðaðu það sem er að
fljúga upp, það sem sest á vatnið og kíktu á fiskana, hvernig þeir taka fæðuna.“
Með þessi ráð meistara Kriegers í huga ákvað ég að vaða niður með steinpallinum fyrir neðan eyjuna
og reyna að kasta uppí straum í von um að ná eðlilegu reki á ansi öflugar ólgur sem birtust aftur og
aftur á sama stað, neðarlega rétt fyrir ofan brot. Þetta tókst eftir nokkur misheppnuð köst, nú sat
Evrópan fallega og rak eðlilega að staðnum þar sem hún var soguð niður.

Fyrsti þurrflugufiskurinn
minn reif út línu, stökk og strikaði svo útaf pallinum yfir strenginn og yfir á sandlygnu beint á móti
pallinum. Þar djöflaðis hann á sporðinum um stund en rauk síðan útí strenginn og niður úr.
Einhvernveginn tóks mér að elta fiskinn með litla sem enga línu eftir á hjólinu. Urriðinn lét svo
skyndilega af látunum og ég náði inn línu. Fyrsti þurrflugufiskurinn minn fór frá mér skömmu síðar
frelsinu feginn.

Þetta var hnausþykkur hængur sem ég giska á að hafi verið tvö og hálft til þrjú kíló.
Þessi upplifun á Hagatá sneri mér algerlega og síðan þá hef ég í hægt og bítandi breyst í
fluguveiðimanninn sem beitir helst engu öðru en eftirlíkingum af því æti sem fiskarnir eru á eftir. Þar
á ég við eftirlíkingum af flugum, lirfum, marflóm, hornsílum og seiðum. Þetta hefur gjörbreytt mér
sem fluguveiðimanni og verður alltaf meira og meira gaman.
Þurrfluguveiði er einstaklega skemmtileg pæling því það er engan veginn nóg að setja bara eitthvað
undir. Hluti af pælingunni er að skoða flugurnar sem fiskurinn er að éta og líkja síðan eftir þeim í
útliti og stærð, en síðast en ekki síst hegðun. Það sama á við um veiðar með straumflugum. Ég býð til
dæmis Litlárurriðanum ekki uppá neitt nema nákvæmar eftirlíkingar af hornsílum eða bleikju- og
urriðaseiðum og veiði hægt með flotlínu.

Á Íslandi hafa fundist 11 tegundir vorflugna, af þeim finnast 7-8 allvíða um landið.  Af þeim eru
Gráváran og Randavorfluga algengastar og nota lirfur þeirra tvenns konar efni til að gera sér hús sem
þær útbúa með því að líma saman með silki sandkorn eða gróðurleifar.  Lengd lirfanna er sjaldan
meiri en 2 cm.  Algengast er að lirfuhúsin séu úr sandkornum hjá þeim tegundum sem lifa í
straumvötnum, en úr gróðurleifum hjá lirfum sem lifa við lygnari skilyrði.  Lirfurnar bera þrjú fótapör
og greinilegt höfuð.  Höfuðið er oftast sýnilegt þar sem það stendur fram úr húsunum og  geta
lirfurnar ferðast um með húsið áfast við afturbolinn.  Fæða lirfanna er nokkuð mismunandi milli
tegunda, sumar eru rándýr, en aðrar lifa á rotnandi jurtaleifum eða skrapa þörunga af steinum.  Á
öllum stigum lífsferilsins eru vorflugur mikilvægar sem fæða fyrir fiska.
Auðvelt er að finna þessar lirfur við ár með því að velta við steinum og skoða botninn. Mér er
minnistætt þegar vinur minn Engilbert Jensen náði sér í steinahulstur undir grjóti við Fellshyl í
Vopnafirði, fór með það heim, skar upp og hnýtti eftirlíkingu af Randavorflugulirfu sem var notuð
daginn eftir með eftirminnilegum árangri. Jensen sem ég tel einn okkar fremstu fluguhnýtara og
fluguhönnuða á margar magnaðar eftirlikingar og nægir að nefna toppflugupúpuna sem er
meistarahönnun og alveg drepveiðin.

Þegar vorflugulirfan er fullþroskuð brýtur hún sér leið út úr húsinu, en á leiðinni upp á yfirborðið
verða ákveðnar breytingar á henni, áður en hún endanlega flýgur upp. Í sólarstillum þar sem vatn er
grunnt er auðvelt að fylgjast með þessu ferli. Óteljandi eru stundirnar sem ég hef staðið hálfboginn
yfir vatnsfleti á grynningum og rýnt á það sem er að fljúga og oftar en ekki hefur bogrið borgað sig.
Fullorðnar vorflugur minna helst á fiðrildi. Lirfurnar lifa bæði í straum- og stöðuvötnum. Tvær
tegundir eru bundnar við straumvötn, sex finnast eingöngu í tjörnum eða stöðuvötnum og þrjár
tegundir vorflugna finnast bæði í straumvötnum og stöðuvötnum. Vorflugurnar hafa tvö pör
vængja. Í hvíld liggja þeir líkt og ris yfir afturbolinn. Útlit flugnanna er nokkuð breytilegt, en algengast
er að þær séu gulbrúnar eða móbrúnar að lit. 

Klaktími flugnanna er mjög mismunandi milli tegunda
og jafnvel innan tegunda, allt frá mars og fram í október.  Æxlun á sér einnig stað á þessu tímabili og
er eggjum orpið í hlaupkenndum massa sem festist við undirlagið t.d. botngróður. 
Hérlendis hafa fundist fjórar tegundir bitmýs, eins og ætt þessi er oftast kölluð. Kvenflugur
bitmýsins stinga og sjúga blóð og eru meðal fárra skordýrategunda hér á landi sem nærast á blóði
annarra lífvera. Með þessu móti fá flugurnar forðanæringu sem gerir þeim kleift að verpa oftar en
einu sinni á lífsferlinum. Algengasta bitmýstegundin á Íslandi, mývargur sýgur blóð úr spendýrum,
tvær tegundir, gullmý og vormý, sjúga blóð úr fuglum og fjórða tegundin, meyjarmý lifir á
blómsykri. Mývargurinn getur verið mjög aðgangsharður, eins og flestir kannast við sem verið hafa
við straumvötn að sumarlagi. 

Flugurnar sækja í alla bera hluta líkamans en einkum þó andlit.  Ólíkt
öðrum skordýrum sem bíta, t.d. moskítóflugum, bítur mývargurinn ekki innandyra eða í
hellisskútum.  Flugurnar eru svartar, smáar, fremur kubbslegar og myndar frambolurinn kryppu á
baki flugunnar.  Mývargurinn er með áberandi ljósa bletti á fótunum.  Augu karlflugnanna eru mjög
stór, þekja mestan hluta höfuðsins en þau eru mun minni hjá kvenflugunum.  Myndbreyting lirfanna
á sér stað í hylki sem líkist kramarhúsi, púpan líkist meira flugunni en lirfunni í útliti.
Lirfa bitmýsins er nokkuð lengri en flugan, ormlaga með greinilegan haus sem fram úr standa tvö
íhvolf net, sem hún notar til að sía fæðu úr vatninu og röð króka á afturendanum til að festa sig á
teppi sem hún spinnur úr silki og festir við grjót. Eins geta þær með silkiþræði farið í ferðalag á næstu
grjót í ætisleit. Ég fór niður fyrir vatnsborðið við Geirastaði um árið og myndað samfélag bitmýslirfa
á einu grjóti. Það var magnað að sjá grjótið verða eins og biðukollu þegar lirfurnar réttu úr sér, meða
háfana úti, allar í einu. Bitmý er helst að finna nálægt straumvötnum, þar sem lirfur þess ala allan sinn
aldur. 

Lífsferill bitmýsins er nokkuð misjafn milli straumvatna, í efri hluta Laxár í S.-Þingeyjarsýslu þroskast
t.d. tvær kynslóðir (júní og síðla júlí) af mývargi á ári, en neðar einungis ein.  Klaktíminn er yfirleitt
seint í maí á Suðurlandi og í júníbyrjun á Norðurlandi. Bitmý er ein mikilvægasta fæða fiska og fugla í
straumvatni s.s. urriða, laxa og straumanda. 

Rykmý (mý) er skylt bitmýi og hrossaflugum og er þessum flugum því stundum ruglað saman. 
Rykmýið er oft algengasta skordýrið sem finnst í vötnum, á það bæði við hérlendis sem erlendis. 
Lirfur þess má finna í straumvötnum, stöðuvötnum, ísöltu vatni og í rökum jarðvegi.  Á Íslandi hafa
verið skráðar 80 tegundir rykmýs, en í heiminum eru þekktar á milli fimm og tíu þúsund tegundir. 
Rykmý er víða ríkjandi hópur smádýra í ferskvatni og er því mjög mikilvægur í fæðuvef viðkomandi
vistkerfa.  Flugur rykmýsins eru nokkuð mismunandi að stærð, lögun og lit.  Karlflugurnar eru
mjóslegnar og yfirleitt lengri en kvenflugurnar, á höfði bera karlflugurnar loðna fálmara sem minna
helst á jólatré. Karlflugurnar geta orðið allt að 1,5 cm á lengd.  Flugur rykmýsins bíta ekki líkt og
flugur bitmýsins, og á fullorðinsstigi nærist rykmýið lítið eða ekkert.  Líftími flugnanna er aðeins
nokkrir dagar, en á þeim tíma makast þær og verpa oftast aðeins einu sinni. 
Mökunaratferli rykmýsins getur verið mjög tilkomumikið, karlflugurnar mynda mikla stróka sem
kvenflugurnar sækja í þar sem þær eru gripnar af tilvonandi maka sem sleppir ekki takinu fyrr en hann
hefur fengið vilja sínum framgengt. Fljótlega eftir mökun fljúga kvenflugurnar út að vatni eða á og
verpa eggjum á vatnsyfirborðið. Egg frá hverri kvenflugu geta verið frá nokkrum tugum í rúmlega
þúsund. Eggin eru umlukin slímmassa sem sekkur niður á botn. Lirfurnar klekjast að fáeinum dögum
liðnum, taka sér þá bólfestu á botni innan um botngróður eða í botnleðjunni.  Þær eru mjóslegnar,
með tvö pör af fóttotum, rauðar, gulgrænar eða blágráar á litin. Rykmýið eyðir mestum hluta
lífsferilsins á lirfustigi, en lífsferillinn getur varað frá nokkrum vikum í tvö ár.Lirfur rykmýsins fara í
gengum þrjú hamskipti áður en myndbreyting á sér stað og púpa myndast.  Púpurnar myndbreytast
inni í pípum þeim sem lirfurnar lifa að öllu jöfnu í.  Púpurnar líkjast nokkuð flugunni, nema hvorki
vængir né fætur eru vel merkjanlegir. Öll forðanæring sem dýrin þurfa til vaxtar og viðhalds er tekin
upp á lirfustiginu. Fæða lirfanna er mjög mismunandi, smásæir þörungar, rotnandi jurtaleifar, lifandi
smádýr eða bakteríur. Rykmýið er mikilvæg fæða fyrir fiska á öllum stigum lífsferilsins. Í Mývatni eru
magar bleikjunnar til að mynda úttroðnir af rykmýslirfum á vissum árstímum.  Stærsta
rykmýstegundin á Íslandi er stóra toppflugan. Lirfurnar eru hárauðar á litin og lifa oftast niðurgrafnar
í botnseti stöðuvatna. 

Að veiða með þurrflugu, krefst nokkurrar tækni, sérstaklega þegar kemur að því að líkja nákvæmlega
eftir því sem er að klekjast út, (mach the hatch). Í mínum huga jafnast ekkert á við þá pælingu þó
vissulega sé gaman að lenda í gráðugum fiski sem virðist til í að kíkja á næstum hvað sem er ef það
flýtur. Ég minnist góðrar vinkonu frá USA sem heimsótti mig nokkur sumur til að veiða. Hún sat
langdvölum við árbakkann,fylgdist með því sem var að fljúga í kringum hana eða beið eftir að
eitthvað settist á vatnið. Þegar fiskur velti sér á flugu, beið hún enn um stund eftir því að sjá fleiri
veltur og fór svo að skoða í fluguboxið.

Þegar ég fór að pæla virkilega í þessari tengingu milli fiskjar og þess sem hann er á eftir og því
hvernig veiðimaðurinn tengist þessu tvennu, upphófst grúsk sem ég veit að á eftir að fylgja mér það
sem eftir er. Það viðurkennist fúslega að þessar breytingar á mér sem veiðimanni tóku á taugarnar,
sérstaklega átti ég erfitt þegar kom að þolinmæðinni sem ég hafði til að byrja með minna af en
æskilegt hefði verið og þegar verst lét langað mig að berja vatnsborðið með flugustönginni. En þetta
óx af mér og í dag geng ég frekar slakur til veiða og nýt þess að eiga mót við fiska í ætisleit.
Það er ekki nóg að eiga góðar eftirlíkingar af því sem fiskar eru að taka í yfirborðinu og vera
þokkalega vel upplýstur um ferli flugunnar frá púpu að fullvaxinni flugu. Það þarf að presentera

flugurnar rétt fyrir fiskunum, á sem eðlilegasta máta. Mjög algengt er að veiðimenn kasti í straumvatni
neðan frá og upp fyrir fiska í fæðuleit, eða andstreymis eins og það er kallað, og nái með því eðlilegu
rennsli á fluguna. Fiskar í æti eru mjög sjaldan að fara í flugu sem ekki flýtur eðlilega að þeim.
Ef menn eru að eiga við fisk í strengjum sem er eitthvað það skemmtilegasta sem ég geri þá virkar
vel að kasta þvert og til að ná eðlilegu reki á fluguna, hlykkja hana í loftinu og búa til það sem ég kalla
harmonikkukast. Með því nær flugan eðlilegu reki í örskamma stund sem dugar oftast ef menn eru
búnir að sirka út tökustaði. Tökur í stríðum strengjum eru oftar en ekki mjög agressívar og
stórskemmtilegar.

Stundum lenda menn í ástandi eins og Jensen vinur minn kallar það þegar allt er vaðandi í
uppítökum og fiskarnir líta ekki við neinu sem þú býður þeim uppá. Þá reynir á þolinmæðina því ef
fiskur er í æti þá finna þolinmóðir fluguveiðimenn á endanu það sem hann er að taka. Stundum er
fiskurinn svo nákvæmur að ef þú ert með númer of stór eða lítið, ef flugan situr ekki nógu hátt þegar
hún á að mara í hálfu kafi eða öfugt eða er ekki með réttum lit þá tekur hann ekki. Næstu við hliðina,
ekki þína.

Í ferð sem ég fór á ósasvæði Hofsár fyrir mörgum árum lenti ég í bullandi uppítökum, sjóbleikja í
hundraðatali að svolgra í sig eitthvað svart. Esý, pesý, hugsaði ég og setti undir svarta flugu með
ljósum væng af svipaðri stærð og ég sá fljóta ofan í kjaftinn á gráðugum bleikjum. Þær snertu aldrei
fluguna mína, ég minnkaði þær og stækkaði en það var alltaf sú næsta við hliðina sem fór niður. Á
endanum náði ég að háfa upp sýnishorn og þá lá þetta ljóst fyrir. Það var galdralöppin þessi með
löngu fótunum sem var á matseðli dagsins og hún, vegna löngu lappanna lá á hliðinni í vatninu. Þegar
ég var búinn að finna eitthvað lappalangt sem mér fannst líkast flugunni var eftirleikurinn auðveldur.
Seint fer mér úr minni sólríkur en erfiður veiðidagur í Litluá í Kelduhverfi. Þar lenti ég í stórum
fiskum að taka uppí yfirborðinu. En þeir litu aldrei við neinu sem ég bauð þeim uppá. Ég var búinn
að prófa að mér fannst allt þegar ljósið kom langt og mjótt. Þessir stóru fiskar sem komu með býsna
reglulegu millibili upp, voru ekki að ná sér í flugu, þeir voru að ná sér í flugur. Klasa af flugum. Þessa
klasa má oft sjá í lygnum innan við straum eða í hringstraum. Til að gera langa sögu stutta þá höfðum
við Jensen rætt þetta einhverntíman og eins og svo oft áður átti Jensen eftirlíkingu af svona klasa og
lét mér eftir einn. Hrikalega lítið varið í þessa flugu sem var búinn til úr svörtu fómi með krók niður
úr miðjunni. En hún virkaði. Síðan þá læt ég það vera að kasta á fiska á klasaveiðum.
Ég veiði allar tegundir af ferskvatnfiskum með þurrflugum. Lax, sjóbirting, brúnan urriða, sjó- og
vatnableikju og lækjarmurtur. Allir þessir fiskar sækja sér fæðu uppí yfirborðið og þó lax éti ekki eftir
að hann gengur í fyrsta sinn úr sjó, þá elst hann uppí ánum sem seiði og lifir á því sem áin hefur
uppá að bjóða. Ástæða þess að lax fer í þurrflugur tengist þessu held ég á einhvern hátt. Sjóbirting hef
ég veitt með stórum bomberum í skoluðu sjóbirtingsvatni. Ég tel persónulega enga ástæðu til að
sökkva öllu á bólakaf til að setja í sjóbirting, kýs frekar að laða hann uppí yfirborðið og það sama á
við um lax. Ég veiði sem sagt eingöngu með flotlínum sem virkar oftast ágætlega og hentar mér afar
vel.

Ég þurrka mínar flugur fyrirfram þ.e. þær sem ég þarf að þurrka. Ef ég er að veiða við viðkvæmar
aðstæður, sól, logn, hiti reynast langir taumar vel og stundum þarf að tauma niður í tvinnastyrk. Ég
kasta yfirleitt ekki á dautt vatn, nema þegar ég dett í ruglið og fer að búa til klak, bíð frekar slakur eftir
að fiskur sýni sig og eyði gjarnan góðum tíma á lygnupollum að sjá hvað er að fljúga upp. Matseðil
fiska má einnig finna á heitum bílhúddum þar sem flugurnar sækja í hitann. Ég æfi fluguköst reglulega
og finnst fátt skemmtilegra. Ég reyni að tileinka mér nýjar kastútfærslur og eins hef ég gaman af að finna sjálfur uppá einni og einni útfærslu. Fluguveiðimenn sem æfa köst og tileinkar sér þær kastútfærslur sem í boði eru, mæta auðveldlega flestum aðstæðum á veiðslóð.

 

 

 

 
 

Vinsæl veiðisvæði

Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.