Jurasic Lake - Estancia Laguna Verde - Argentína - Fish Partner

Jurasic Lake – Estancia Laguna Verde – Argentína

Hvar

Estancia Laguna Verde veiðihúsið er staðsett á bökkum Laguna Verde í Patagoníu, steinsnar frá Strobel vatni sem er einnig þekkt sem “Jurassic Lake”.

 

Veiðin

 

Strobel vatn – “Jurassic Lake”

Fyrst bera að sjálfsögðu að nefna Strobel vatn. Vatnið er þekkt um allan heim fyrir að hýsa ótrúlegt magn af Regnboga sillung og í stærðum sem finnast varla annarstaðar í heiminum. Vindurinn í Patagoniu getur reynst fluguveiðifólki erfiður en það eru staðir sem gefa gott skjól sem gerir það að verkum að þú getur verið að sjónkasta á risa regnbogasillung, nánast í hvaða veðri sem er.

 

Barranosco áin

Áin er sú eina sem rennur í Strobel vatn og heldur jafnan mikið af fiski. Estancia Laguna Verde lodge hefur aðgang að 10 kílómetra kafla af ánni og eru veiðistaðirnir mjög fjölbreyttir. Vatnið er tært og áin virkilega falleg.

 

Moro Creek

Lítil og viðkvæm á sem rennur í gegnum landið sem veiðihúsið stendur á. Það var ekki byrjað að veiða í þessari á fyrr en fyrir nokkrum árum síðan og á stuttum tíma hefur hún orðið uppáhald margra, sérstaklega þeirra sem fara í vorðveiðina. Það getur verið áskorun að veiða Moro Creek, læðast þarf að tökustöðum og vanda köstin. En ef vel tekst til verðlaunar áin veiðimanninn ríkulega.

Fyrir utan þessi veiðisvæði er einnig boðið upp á veiði í fleiri vötnum á svæðinu. Þetta er sannkölluð veiðiparadís og er óhætt að segja að allir veiðimenn ættu auðveldlega að geta fundið veiði við sitt hæfi.

 

Veiðihúsið

Húsið er eins og áður segir staðsett nánast á bökkum Verde vatnsins. Húsið rúmar 10 veiðimenn á viku og er með sjö tveggjamanna herbergjum. Öll herbergin eru búin baðherbergi og tveimur rúmum. Athugið að hægt er að vera einn í herbergi að viðbættum auka kostnaði. Í sameiginlega rýminu er stofa með ótrúlegt útsýni yfir vatnið þar sem hægt er að slaka á fyrir eða eftir veiði dagsins. Til að auka enn á slökunina er einnig aðstaða til fluguhnýtinga sem og gott bókasafn sem auðvelt er að gleyma sér í.

 

Matur

Maturinn í veiðihúsinu er gríðarlega fjölbreyttur. Kokkurinn og aðstoðarkokkurinn þekkja vel til hráefnisins sem er að finna í nágrenninu og nota það óspart. Lamb og silungur að hætti heimamanna er frábær matur en einnig er virkilega gaman að fá að kynnast “asados” en það er grillmatur að hætti heimamanna.

 

Drykkur

Vínseðillinn er mjög fjölbreyttur og inniheldur meðal annars Malbec, Cab. Sauvignon og Tannat þrúgurnar ásamt fleirum. Auk þess er boðið upp á argentískan bjór sem er bruggaður í nágrenninu ásamt sterkum vínum, koníaki og viský.

 

Hvernig kemst ég þangað?

Flogið er till Buenos Aires og síðan tekið innanlandsflug til El Calafete. Þaðan er svo keyrt í veiðihúsið en aksturinn tekur um 7 klukkustundir. Athugið að hægt er að leigja flugvél til þess að stytta þetta ferðalag til mikilla muna.

 

Búnaður og leiðsögumenn

Þar sem veiðisvæðið er víðfemt og möguleikarnir svo til endalausir er erfitt að segja að einhver ein stöng sé sú eina rétta fyrir svæðið. Við mælum með einhendum í #7-#8 fyrir vötnin. Flotlína með hægsökkvandi enda og hjóli með 100-150 metrum af 30 punda undirlínu. Fyrir Barranosco ána er gott að vera með stöng í #4 – #5 og flotlínu.

Leiðsögumennirnir eru gríðarlega reynslumiklir á svæðinu og hafa sumir hverjir veitt á svæðinu í áratugi.

 

Veiðitímabilið

Vorveiðin

Tímabil: Október – Janúar.

Á vorin getur veiðin oðrið ævintýraleg. Fiskurinn er gríðarlega tökuglaður og segja má að nánast hvaða fluga sem er í boxinu þínu virki. Það veiðist gríðarlegt magn af fiski á dag og ekki óalgengt að fólk einfaldlega týni tölunni yfir hve mörgum fiskum það hefur landað yfir daginn. Lofthitinn á þessum tíma er ekki orðinn mjög hár. Snjábráðin úr fjöllunum sér til þess að Moro Creek og Barranosco áin hafa nægt vatn en regnbogasilungurinn hrygnir á vorinn og leitar því mikið upp í árnar. Það er ótrúlegt sjónarspil að sjá árnar svo gott sem teppalagðar af fiski. Þessi tími árs er jafnan sá vinsælasti og því gott að vera tímanlega í að bóka veiði þá.

 

Sumarveiðin

Tímabil: Janúar – miðjan Mars.

Nú er veðrið orðið betra og hitastigið hærra. Sumarveiðin er töluvert öðruvísi en vorveiðin. Fjöldi fiska sem er landað á dag lækkar örlítið þar sem vatnið í Moro ánni og Barranosco ánni minnkar sem gerir það að verkum að fiskurinn dreifir sér meira um vatnakerfið. Veiðin á þessum tíma er svolítið tæknilegri og krefst meira af veiðimanninum. Nú eru köstin og flugurnar farnar að skipta meira máli en í vorveiðinni. Þetta er uppáhalds tími margra fluguveiðimanna sem elska áskorun og það er óhætt að segja að verðlaunin þegar allt gengur upp eru ríkuleg.

 

Haustveiðin

Tímabil: Frá miðjum Mars – Maí.

Daginn er tekið að stytta og lofthitinn búinn að lækka. Fiskurinn er farinn að skynja að glugginn sem hann hefur til að nærast er að lokast og verður þá virkilega grimmur í töku. Það veiðist mikið af fisk á þessu tímabili og aðferðirnar eru mjög mismunandi. Þegar haustrigningarnar byrja gengur fiskur úr Strobel vatni upp í Barranosco ána. Þessi fiskur er búinn að lifa í vellystingum í vatninu allt tímabilið og er einn sá sterkasti sem þú getur komist í kynni við. Á þessum tíma er veiðitímabilið víða að byrja, á meðan það er að enda hjá okkur. Þessi tími er mjög vanmetinn en veiðin á haustin hérna getur verið ævintýraleg.

 

Verð

Verð frá 6200$ vikan. Styttri pakkar í boði.
Flug ekki innifalið

Staðsetning:

Estancia Laguna Verde, Jurasic Lake - Argentína

Veiðitímabil:

Október - Maí

Myndasafn

Hafa Samband

Put Address Here

Vinsæl veiðisvæði

Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.
Síðsumarsá í stóbrotinni náttúru – Þessi tveggja stanga perla og rennur í gríðarlega fallegu, skógi vöxnu, umhverfi í Þjórsárdal.