Vegna vatnsþurrðar sem nú er á efri svæðum í Grenlæk og í Jónskvísl og Sýrlæk mun öllum veiðimönnum sem veiða svæðin á vegum Fish Partner vera skylt að sleppa öllum fiski og veiða eingöngu á flugu. Engar undantekningar verða gerðar á þessum reglum í sumar.
Þessar reglur eru settar í verndunarskyni því nokkuð víst er að talsverður fiskidauði hefur þegar átt sér stað á svæðinu og að seiðadauði er mikill. Næstu árgangar sjóbirtings á efri svæðum Grenlækjar eru því í stórhættu. Ef þurrðin heldur áfram má gera ráð fyrir miklu magni af sjóbirtingi í Flóðinu og í Kvíslunum á tímabilinu og því er mikilvægt að allir fiskar fái að lifa svo þeir komist aftur á efri svæðin þegar, og ef, vatn rennur þar á ný.
Ábyrgð á þessum hörmungum ber Vegagerðin vegna varnargarða sinna og mega stjórnendur hennar skammast sín fyrir að virða ekki tilverurétt einhvers merkasta sjóbirtingsstofns veraldar. Að mati stjórnenda Fish Partner er einfaldlega um fjöldamorð á sjóbirtingi að ræða og er kallað eftir því að stjórnvöld dragi stjórnendur Vegagerðarinnar til ábyrgðar vegna þessa hryðjuverks.
Fish Partner skorar á önnur veiðifélög sem eiga rétt á svæðinu að fylgja þessu fordæmi og setja samskonar reglur.
Fish Partner mun endurgreiða þeim veiðimönnum sem eru mótfallnir þessum reglum veiðileyfi sín að fullu og endurselja þau. Hafi veiðimenn hug á því eru þeir vinsamlegast beðnir að hafa samband við Fish Partner tímanlega í tölvupósti á info@fishpartner.com.
Virðingarfyllst,
F.h. Fish Partner,
Kristján Páll Rafnsson