Góð minning úr Árbótinni - Fish Partner
Árbót veiðimaður með fisk

Góð minning úr Árbótinni

Góð minning úr Árbótinni

Undir lok júní árið 2015 átti ég leið um Aðaldalinn og vissi að það var enginn að veiða í Árbótinni. Klukkan var um átta að kveldi þegar ég mætti og ég ákvað að skreppa og sjá hvort að laxinn væri lagstur á efsta stað svæðisins. Ég var svo spenntur að ég hljóp upp eftir en vanalega er þetta um korters gangur frá bílastæðinu.

Efsti staðurinn heitir Breiðeyri og er gríðar fallegur og stór veiðistaður eins og margir í Laxánni. Ég byrja efst og veiði mig hægt niður eyrina. Það er sandeyri sem maður veður út á og oft liggur hann í kantinum. Þegar ég var búinn að veiða eyrina og var byrjaður að kasta á brotið varð allt vitlaust – Þvílík negla! Hann tók sneri sér við og rauk niður stríða flúðina sem liggur niður að næsta veiðistað 400 metrum neðar. Áður en ég var kominn í land hafði fiskurinn rifið mig langt niður á undirlínu. Nú hófust mikil hlaup – alveg á fúll spítt! Fiskurinn stoppaði í miðri flúðinni og ég náði að spóla inn undirlínunni. Nú var hann stopp. Fiskurinn stekkur og þetta virtist vera hrygna af stærri gerðinni! Um leið og hún lendir rauk hún áfram niður eftir og alveg niður í Höskuldarvík. Ég stundaði nú hlaup einu sinni af kappi en er þetta í fyrsta sinn sem ég hef fengið blóðbragð í munninn vegna hlaupa, svo móður var ég að ég náði varla andanum. Fiskurinn var þungur og þumbaðist um alla vík og aftur var ég kominn langt niður á undirlínu og fiskurinn kominn að bakkanum fjær.

Einn af heimamönnum úr Ábótinni kom að mér ríðandi á hest og sá hvað gekk á og bað ég hann um að vera með mér ef skyldi þurfa að stranda fiskinum. En þá varð allt í einu allt fast! Greinilegt var að hún hafi farið á bakvið klett og nú haggaðist ekkert. Ég reyndi að vaða út til að leysa en áin er óvæð á þessum stað og ljóst var að ég þurfti að láta í minni pokann. Fiskurinn hafði betur í þetta sinn. Þetta er eitt af þessum augnablikum sem lifa í minningarbankanum um alla tíð. Sumarið er handan við hornið og klárt mál að margir eiga eftir að skapa margar skemmtilegar minningar við bakkann í sumar.

Strekktar línur!

Kristján Páll Rafnsson

Stofnandi Fish Partner

Vinsæl veiðisvæði

Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Arnarvatnsheiðin er eitt gjöfulasta silungsveiði svæði landsins
Sennilega stórbrotnasta svæði Þingvallavatns – Kárastaðir eru við norðanvert Þingvallavatn skammt frá ós Öxará
Villingavatn, eða Tjörnin, lætur ekki mikið yfir sér en geymir þó mikið af urriða sem margir hverjir eru mjög stórir.