Það er óhætt að segja að það sé búin að vera frábær veiði á Kárastöðum það sem af er tímabili.
Þetta margrómaða stór-urriðasvæði opnaði 1. apríl síðastliðinn og eftir að ísa tók að leysa almennilega hafa veiðimenn verið að setja í, og landa, mikið af gullfallegum urriða.
Það er algjörlega ólýsanlegt að glíma við þingvallaurriðann. Eins og margir vita er hann hrikalega sterkur og plássið sem hann hefur úr að spila er gríðarlegt sem gerir það að verkum að líkurnar eru ekki alltaf með manni í liði þegar hann tekur. Margir kjósa að veiða Kárastaði djúpt með þungum straumflugum og sökklínu. Það er þó alls ekki eina leiðin þar sem fiskurinn hefur verið að veiðast nær yfirborðinu undanfarna daga, líklega eru það hlýjindin sem spila þar inn í.
Það eru enn nokkrar stangir lausar á Kárastöðum á næstu dögum og hvetjum við veiðifólk eindregið til þess að nýta sér tækifærið á að komast í tæri við þessar mögnuðu skepnur!