Black Ghost, eftir Herbert Welch er ein allra þekktasta straumfluga sem hönnuð hefur verið. Hún var upphaflega hönnuð um árið 1919 en upp úr 1927 varð hún svo gott sem fastur póstur í fluguboxum amerískra veiðimanna.
Herbert Welch var merkilegur maður, bæði hvað varðar fluguhnýtingar og fluguveiði en einnig var hann afbragðs listamaður, en verk eftir hann eru t.a.m til sýnis á hinu merka Simthsonian safni í Bandaríkjunum. Að auki var hann frábær flugukastari og var vinsælt að fá hann til að sýna flugukast á sýningum þegar kynna átti sportið.
Þrátt fyrir að Herbert hafi hannað fleiri flugur sem náðu ágætis fótfestu á meðal veiðimanna á fyrri part 20.aldar þá hefur engin þeirra náð jafn miklum vinsældum og Black Ghost. Það virðist vera eitthvað við þessa lita samsetningu sem virkar.
Upphaflega var Black Ghost hnýtt á legglangan straumflugu krók með fjaðurvæng. Tæknin sem er notuð til þess að hnýta vænginn er áhugaverð. Teknar eru tvær hvítar hanafjaðrir og tvö “augu” af frumskógarhana. Í stað þess að hnýta hanafjaðrirnar inn samtímis og svo frumskógarhanann utan á er vængurinn gerður í nokkrum skrefum. Tekin er ein hanafjöður og eitt auga af frumskógarhana. Settur er örlítill dropi af lími á hanafjöðurina og augað límt á hana þar sem það á að vera. Sama er endurtekið með hinar fjaðrirnar. Fjaðrirnar eru síðan lagðar saman og hnýttar niður samtímis.
Þessa aðferð má nota til þess að hnýta nær allar flugur sem nota fjaðurvæng en með henni verður hausinn á flugunni mun snyrtilegri en ella.
Í gegnum árin hafa mörg afbrigði af Black Ghost litið dagsins ljós. Með tilkomu nýrra efna, nýrra króka og aukins hugmyndaflugs fluguhnýtara hefur hönnun flugunar breyst en megin reglan er þó nánast alltaf sú sama. Svartur búkur, gult skott og kragi. Hvítur vængur.
Eitt vinsælasta afbrigðið í dag er Black Ghost með zonker væng. Zonker er í raun samheiti yfir það hvernig feldur er skorinn og getur vængurinn verið úr kanínu, íkorna, o.s.frv þó svo kanínan sé einna mest notuð.
Nýverið kom fram enn eitt afbrigðið en Jón Stefán Hannesson (@arctic_murta á Instagram) hnýtti gríðarlega fallega útgáfu ætlaða í lax.
Það er óhætt að segja að Black Ghost eigi heldur betur heima í fluguboxinu þínu, hvort sem þú ert að fara veiða bleikju, urriða eða jafnvel lax.
Eiður Kristjánsson